föstudagur, febrúar 28, 2014

28. febrúar 2014 - Græðgisvæðing íslenskrar náttúru


Þessa dagana kemur hver landeigandinn á fætur öðrum og ætlar að græða á náttúrunni, landeigendur við Geysi ætla að rukka ferðamenn fyrir að koma inn á Geysissvæðið þótt Geysir sé í eigu þjóðarinnar, landeigendur ætla að rukka þá sem skoða Dettifoss af því að ferðamenn gætu þurft að fara í gegnum þeirra landssvæði til að komast að fossinum sem er í eigu þjóðarinnar og sömu sögu er að segja um aðrar náttúruperlur.

Þetta byrjaði í fyrra. Þeir sem höfðu keypt Kerið girtu umhverfið af og settu upp skúr og byrjuðu að innheimta peninga.  Ég ók tvisvar sinnum framhjá með útlendinga sem höfðu ekki áhuga á að greiða fyrir aðgang og við héldum för okkar áfram að Geysi og Gullfossi þar sem náttúran var enn frjáls. Nú á að byrja að rukka og græða fullt af peningum á náttúrunni. Nú ætla allir að græða og fá fullt af peningum frá vesalings túristunum. Það verður rukkað við Kerið, það verður rukkað við Geysi og það verður rukkað við Dettifoss og það verður rukkað við Námaskarð. Það er talað um að rukka fyrir aðgang að Þórsmörk, Seljalandsfoss og Skógafoss og það mun ekki líða á löngu uns farið verður að rukka fyrir aðgang að Þingvöllum, að Gullfossi, að Laugaveginum og víðar. Látum helvítis túristana borga! Þeir eiga hvort eð er fullt af peningum.

Hvað sagði Jónsbók um óheftan aðgang að landinu?

Þessi nýja græðgisvæðing mun  veita fullt af fólki vinnu við að innheimta gjöld og setja upp girðingar, en ekki mjög lengi, ekki frekar en síðasta græðgisvæðing. Eftir eitt til tvö ár af græðgi mun ferðamannaiðnaðurinn hrynja eins og spilaborg, ferðamenn hætta koma til Íslands. Eftir situr fjöldi fólk með sárt ennið, menn sem veðjuðu á áframhaldandi aukningu ferðamanna á Íslandi, sem byggðu hótel og dýra afþreyingastaði.

Ég hefi ekkert á móti hóflegri innheimtu gjalda fyrir átroðning og jafnvel greiðslu fyrir einstöku viðburði þar sem krefjast þarf leiðsögu sérmenntaðra aðila. Það er hinsvegar ekki hið sama og gjald á hverjum stað fyrir sig. Setjum á náttúrupassa þar sem lagður er þúsundkall á sérhvern flugfarseðil til landsins sem rennur óskiptur til náttúruverndar á Íslandi. Innheimtum eitt hóflegt gjald sem náttúrupassa  fyrir sérhvert skemmtiferðaskip sem kemur til Íslands, en í guðanna bænum, setjið ekki upp gjaldhlið við sérhvern afleggjara af þjóðvegi eitt eins og nú stendur til að gera. Það mun valda hruni í ferðaþjónustu á Íslandi.

1 ummæli:

  1. Svo er það spurning að geta undirbúa fólk á ferðaskrifstofunni um að selja pakkaferðir með innifeldum kostnaði að náttúruperlunum sem væri betri díll og allt inní pakkanum Rútuferðir sem sagt pakkaferðir og sýna á miða við innheimtuna td gullfoss og geisi við vendum náttúruna en þeir verða að sýna fram á að ágóðinn fari í að græða upp og laga þann Átroðning sem hefur átt sér stað við ráðum ekki 1 milljón ferðamanna á 1 ári það mun rústa landinu og hvað eigum við þá til að sýna erlendum gestum okkar sem margfaldast með hverju ári .Svo er það spurningin ?munu þeir nota féð til uppbiggingar á svæðinu?

    SvaraEyða